Viðskiptaskilmálar

Almennir viðskiptaskilmálar

 1. Almennt

  Þeir viðskiptaskilmálar sem birtir eru á netsíðu Íslandshúsa ehf. hverju sinni eru gildandi viðskiptaskilmálar félagsins. Viðskiptaskilmálar, ásamt viðkomandi sérskilmálum, gilda um öll viðskipti Íslandshúsa ehf. (hér einnig nefnt félagið eða fyrirtækið) og viðskiptamanna þess (hér einnig nefndir kaupendur), nema um annað sé samið sérstaklega eða áskilið af Íslandshúsum ehf. Sé ósamræmi á milli almennra viðskiptaskilmála og sérstakra viðskiptaskilmála, gilda hinir sérstöku viðskiptaskilmálar.

  Þeir viðskiptamenn sem kaupa vörur eða panta vörur, óska eftir tilboði, samþykkja tilboð, undirrita kaupsamning eða taka á móti vörum frá fyrirtækinu, hvort sem er í reikningsviðskipti eða staðgreiðslu, samþykkja um leið viðskiptaskilmála félagsins eins og þeir eru á hverjum tíma.

 2. Gildissvið skilmálanna

  1. Undir skilmála þessa fellur öll vara og þjónusta, sem keypt er af Íslandshúsum ehf. Félagið áskilur sér rétt til að breyta bæði almennum viðskiptaskilmálum og sérskilmálum án fyrirvara.
  2. Með skilmálum þessum falla eldri skilmálar úr gildi.
 3. Pantanir og tilboð

  1. Kominn er á samningur um viðskipti á milli Íslandshúsa ehf. og viðskiptamanns, þegar viðskiptamaður hefur pantað vöru t.d. í síma eða með tölvupósti, staðfest tilboð, undirritað samning eða samningsviðauka, tekið við vöru og/eða greitt fyrir vöru eða þjónustu. Að öðru leyti gilda samningalög um viðskipti aðilanna.
  2. Gefi Íslandshús ehf. viðskiptamanni verðtilboð með fyrirfram ákveðnum gildistíma er Íslandshús ehf. óbundið af samþykki sem berst eftir þann tíma. Sé tilboð ekki með gildistíma gildir það í 20 daga frá dagsetningu þess, nema annað sé tekið fram.
  3. Íslandshús ehf. áskilur sér rétt til að hafna viðskiptum ef svo ber undir.
 4. Framsal

  1. Framsal á umsömdum réttindum til þriðja aðila er óheimil og öðlast ekki gildi nema kveðið sé sérstaklega á um heimild til slíks framsals í samningi eða sérskilmálum.
 5. Sérstakir samningar

  1. Almennir viðskiptaskilmálar þessir, ásamt samþykktu tilboði, sérstökum skilmálum auk samnings sjálfs og eftir atvikum samningsviðauka við viðskiptamann, fela að jafnaði í sér heildarsamning aðilanna um viðskiptin. Ef um er að ræða sérstakan samning við viðskiptamann, s.s. verksamning, gilda ákvæði samnings framar viðskiptaskilmálum þessum.
 6. Verð, skilmálar, greiðslukjör, tilboð, afslættir o. fl.

  1. Allt verð sem félagið gefur upp er grunnverð. Verð er ýmist gefið skv. gjaldskrá félagsins á netinu eða skv. tilboði. Virðisaukaskattur er innifalinn í uppgefnu verði nema annað sé sérstaklega tekið fram. Öll uppgefin verð og verðtilboð breytast með útgáfu nýrrar gjaldskrár sem getur breyst án fyrirvara, nema annað sé tekið fram í tilboðum.
  2. Staðgreiða skal vörur og þjónustu, nema annað sé umsamið.
  3. Ef um er að ræða staðgreiðsluafslátt eða magnafslátt dregst fjárhæð afsláttar frá grunnverði. Afslættir eru ekki gefnir af tilboðsverði.
  4. Öll afgreidd vara er eign Íslandshúsa ehf. þar til fullnaðargreiðsla hefur átt sér stað. Greiðsla með viðskiptabréfum, greiðslukorti eða öðrum greiðslumiðli telst ekki fullnaðargreiðsla fyrr en full skil hafa verið gerð gagnvart Íslandshúsum ehf. Sala, framsal, veðsetning eða önnur ráðstöfun söluhlutar eða verks er óheimil án undangengins samþykkis Íslandshúsa ehf. á meðan félagið telst eiga eignarrétt að hlut eða verki.
  5. Í sérstökum skilmálum og sértilboðum Íslandshúsa ehf. til viðskiptavina kunna að vera gerðir fyrirvarar eða sett skilyrði. Ganga þau atriði sem þar koma fram framar viðskiptaskilmálum þessum.
  6. Fyrirtækið áskilur sér rétt til að gera verðbreytingar án fyrirvara.
   Það hefur allan rétt til að gera breytingar á framleiðsluvöru sinni og ábyrgist ekki að eiga allar framleiðsluvörur samkvæmt vörulista á lager.
  7. Grunnverð á framleiðsluvörum innifelur ekki akstur nema um annað sé samið.
 7. Söluveð og eignarréttarfyrirvarar

  1. Kaupandi veitir félaginu söluveð í hinu keypta, sbr. lög nr. 75/1997 um samningsveð tóku gildi 1. janúar 1998. Breytt með l. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011) og l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
   Veðrétturinn nær til allra þeirra hluta sem greindir eru í samningi/á reikningi þar til samningsverð/reikningur er að fullu greiddur ásamt vöxtum og kostnaði ef við á. Veðið er til tryggingar kröfu félagsins til alls þess endurgjalds sem greint er í samningi/reikningi, ásamt vöxtum og kostnaði. Hluti þá er veðsettir eru má kaupandi hvorki selja né veðsetja án skriflegs samþykkis félagsins. Ef vanskil verða á greiðslu þeirra krafna sem veðrétturinn nær til, getur Íslandshús ehf. leitað fullnustu kröfu sinnar.
  2. Félagið selur vörur sínar með eignarréttarfyrirvara og skal um meðferð hans farið eftir 42. gr. laga nr. 75/1997 með síðari breytingum, um samningsveð.
 8. Undirverktakar

  1. Íslandshús ehf. áskilur sér rétt til að ráða undirverktaka til að inna af hendi allar þær skyldur sem félagið hefur tekið að sér í tengslum við selda vöru og/eða þjónustu. Undirverktakar starfa á ábyrgð félagsins gagnvart viðskiptavinum þess.
  2. Flutningsaðilar vöru sem félagið útvegar fyrir kaupendur eru ekki undirverktakar félagsins. Kaupendur eru í beinu samningssambandi við slíka flutningsaðila og greiða þeim fyrir flutninginn.
 9. Afhending vöru

  1. Afhending söluhlutar, framsal skjala eða önnur yfirfærsla ráðstöfunarréttar yfir söluhlut og verki fer fram gegn greiðslu söluverðs nema um reikningsviðskipti eða staðgreiðslulán, Visa og Eurocard sé að ræða.
  2. Íslandshús ehf. vátryggir ekki vöru í flutningum. Óski viðskiptamaður eftir því að vara verði vátryggð í flutningum ber honum sjálfum að annast vátrygginguna.
  3. Áhætta af hinu selda flyst úr hendi Íslandshúsa ehf. til kaupanda við afhendingu félagsins. Samningur um akstur vöru á afgreiðslustað breytir ekki því tímamarki sem áhættan af kaupunum flyst yfir til kaupanda. Ef hlutar er ekki vitjað eða honum veitt viðtaka á afhendingartíma og það má rekja til kaupanda eða atvika sem hann varða, flyst áhættan yfir á kaupandann þegar hlutur er honum til ráðstöfunar og viðtökudráttur verður af hans hálfu.
  4. Íslandshús ehf. ber enga ábyrgð á þeim aðstæðum sem upp kunna að koma og valda því að ekki er hægt að afferma og/eða afhenda vörur á afhendingarstað. Kaupandi á enga kröfu á félagið ef afhending vöru dregst af ástæðum sem félagið getur ekki stýrt. Kaupandi á enga kröfu á félagið vegna tapaðra vinnustunda vegna þess að bíða þarf eftir vöru.
  5. Fyrir afhend vörubretti, lyftikróka, áhöld og tæki, reiknast leigu- og skilagjald samkvæmt verðlista fyrirtækisins á hverjum tíma. Er skilagjaldið endurgreitt þegar vörubrettum, áhöldum eða tækjum er skilað til Íslandshúsa ehf. að lokinni notkun. Endurgreiðsla er háð því að ofangreindum vörubretti, áhöld og tæki séu í lagi við skil. Í öllum tilvikum þarf við vöruskil að framvísa sölureikningi eða sölureikningsnúmeri sem var afhent þegar vara var keypt.
 10. Eiginleikar vöru

  1. Um eiginleika vöru og gæðastaðla sem ætlað er að tryggja þá eiginleika fer skv. birtum upplýsingum íslandshúsa ehf. á heimasíðu félagsins og byggingareglugerð og stöðlum sem í gildi eru á hverjum tíma. Félagið vinnur eftir virku innra gæðaeftirliti og gefur upp ítarlegar upplýsingar um eiginleika vöru og notkunarleiðbeiningar. Það er alfarið á ábyrgð viðskiptamanns ef hann fylgir ekki leiðbeiningum um notkun vöru.
 11. Vöruskil og skil vegna gallaðrar vöru.

  1. Vöru fæst einungis skilað sé um staðlaða framleiðsluvöru að ræða og gegn framvísun reiknings. Skal varan vera í upprunalegu ásigkomulagi og án sjáanlegra skemmda.
  2. Vöruskil geta orðið í samræmi við ákvæði viðkomandi samnings, hafi verið gerður sérstakur
   samningur um kaupin.
  3. Vöru má skila ef varan er sannanlega gölluð og ekki er unnt að bæta gallann með viðgerð, sem framkvæmd verður af Íslandshúsum. Sérpantaðri vöru fæst ekki skilað nema um galla sé að ræða.
  4. Skilafrestur vöru skv. ofangreindu er 30 dagar frá úttektardegi.
  5. Kaupanda ber að kanna hvort kreditreikningur og/eða móttökukvittun sé í samræmi við vöruskil og ber hann ábyrgð á því hafi hann tekið við kreditreikningi eða móttökukvittun sem er ekki rétt. Getur hann ekki krafist leiðréttinga vegna þessa.
 12. Ábyrgð á vöru og takmörkun ábyrgðar

  1. Ábyrgð Íslandshúsa ehf. á göllum í framleiðsluvörum er takmörkuð við það að félagið afhendir nýja vöru frá verksmiðju í stað þeirrar sem verður að skipta um. Ábyrgð félagsins nemur þó aldrei hærri fjárhæð en viðskiptamaður greiddi fyrir vöruna í upphafi. Félagið tekur ekki ábyrgð á kostnaði við viðgerð eða ábyrgð á afleiddu tjóni. Lögð er áhersla á að viðskiptamaður skoði vöru við móttöku og að gallar á vöru séu tilkynntir umsvifalaust til félagsins. Eftir að Íslandshús ehf. hefur afhent vörurnar á umsaminn afhendingarstað eftir beiðni viðskiptamanns, ber Íslandshús ehf. enga ábyrgð á því að vörunar verði fyrir tjóni eða valdi tjóni gagnvart þriðja aðila. Við mat á því hvort söluhlutur er gallaður skal miðað við það tímamark þegar áhættan af söluhlut flyst yfir til kaupanda sbr. grein 8.
  2. Ef kaupandi leggur ekki fram kvörtun innan árs frá þeim degi er söluvara er afhent getur hann ekki borið galla fyrir sig síðar. Sé um neytendakaup að ræða skal kaupandi leggja fram kvörtun innan tveggja ára frá þeim degi er hann veitti söluhlut viðtöku eða fimm ára sé söluhlutur byggingarefni sem ætlað er verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti.
  3. Ábyrgð félagsins er miðuð við að viðskiptavinur hafi notað vöruna í samræmi við leiðbeiningar og venjulega eða eðlilega notkun. Félagið áskilur sér rétt til að krefjast þess framkvæmdaraðilar hafi faglega löggildingu og sérstaka vottun frá félaginu til að meðhöndla vörur frá því. Hafi félagið gefið út lýsingu á notkun vörunnar, handbækur eða aðrar leiðbeiningar um notkun vörunnar er ábyrgð félagsins háð því að notkun vöru hafi verið í samræmi við það. Kvörtun vegna gallaðrar vöru eða þjónustu skal berast strax og gallans verður vart. Kaupanda ber skylda til að skoða vöru vandlega við móttöku og tilkynna félaginu um galla áður en vöru er skeytt saman eða skeytt við byggingu eða einingar eru lagðar.
  4. Viðskiptamenn félagsins eiga engan rétt til skaðabóta, þegar vanefndir orsakast af óviðráðanlegum atvikum (Force Majeure) svo sem vinnudeilum, styrjöldum, uppreisnum, náttúruhamförum, aðgerðum stjórnvalda á sviði gjaldeyris- og viðskiptamála, viðskiptabönnum, hafnbönnum, almennum samgönguhindrunum, orkuskorti og óviðráðanlegum atvikum í samskiptum við undirverktaka.
  5. Framvísa skal sölureikningi til staðfestingar á ábyrgð vegna vöru.
  6. Ábyrgð nær ekki til vinnu eða aukakostnaðar, t.d. aksturs og ferðatíma. Ábyrgð nær ekki til kostnaðar sem hlýst af breytingum annarra en starfsmanna félagsins á hinu selda.
  7. Ábyrgð fellur niður í eftirtöldum tilvikum:

   1. Þegar tjón verður sem stafar af rangri meðferð, misnotkun eða slysni.
   2. Viðgerð eða tilraun til viðgerðar hefur verið gerð af öðrum en starfsmönnum Íslandshúsa ehf. án samþykkis fyrirtækisins.
   3. Átt hefur verið við hið selda þannig að skemmd hefur hlotist af.
   4. Varan er ekki uppsett eða meðhöndluð af fagaðilum sbr. gr. 12.3.
  8. Kaupandi á engar kröfur á hendur félaginu vegna eiginleika hins keypta sem hann varð var við, mátti verða var við eða mátti sjá við móttöku eða notkun, af leiðbeiningum, lýsingum eða öðrum upplýsingum er fylgdu hinu keypta.
  9. Félagið ber í engum tilvikum ábyrgð á rekstrartapi kaupanda eða öðru óbeinu tjóni hans, þ.m.t. glötuðum ágóða eða ráðgerðum sparnaði, hvort sem tjónið er rakið til galla, skemmda eða eyðileggingar á hinu keypta eða til annarra ástæðna.
  10. Kaupandi getur ekki borið neitt það fyrir sig sem galla sem hann vissi eða mátti vita um þegar kaupin voru gerð. Hafi kaupandi ekki sinnt rannsóknarskyldu við afhendingu getur kaupandi ekki borið fyrir sig neitt það sem hann hefði þá átt að veita athygli. Framangreint gildir einnig hafi kaupandi fyrir kaup rannsakað sýnishorn af hlutnum eða látið það hjá líða án gildrar ástæðu og gallinn varðar eiginleika sem sjá mátti á sýnishorninu.
  11. Þurfi Íslandshús ehf. að greiða kaupanda bætur í tengslum við samning þennan getur kaupandi aldrei farið fram á greiðslu bóta sem eru hærri en sem nemur kaupverði hins keypta.
  12. Útfellingar (úr sementinu og sandinum) geta átt sér stað á yfirborði steypuvöru. Íslandshús ehf. tekur ekki ábyrgð vegna þessa, en útfellingarnar hafa engin skaðleg áhrif á vöruna.
 13. Viðskiptareikningar

  1. Óski viðskiptamaður eftir reikningsviðskiptum, skal hann sækja sérstaklega um það á skrifstofu félagsins. Það er forsenda reikningsviðskipta að viðunandi tryggingar séu til staðar fyrir reikningsúttektum. Viðskiptareikningar Íslandshúsa ehf. eru mánaðarreikningar. Úttektartímabil er hver almanaksmánuður.
  2. Gjalddagi skuldar á viðskiptareikningi hvers mánaðar er 1. dag næsta mánaðar á eftir. Eindagi er 14. dagur næsta mánaðar á eftir úttektarmánuði.
  3. Íslandshús ehf. áskilur sér rétt til að setja eftirfarandi skilyrði fyrir reikningsviðskiptum:

   1. Að viðkomandi viðskiptamaður eða ábyrgðarmaður fyrir úttektum í reikningsviðskipti sé þinglýstur eigandi fasteignar.
   2. Að hvorki viðskiptamaður né ábyrgðarmaður sé skráður á vanskilaskrá Creditinfo.
   3. Sé viðskiptamaður lögaðili setur félagið það sem skilyrði fyrir reikningsviðskiptunum að þau séu tryggð með ábyrgð ábyrgðarmanns sem er þinglýstur eigandi fasteignar og ekki skráður á vanskilaskrá Creditinfo.
   4. Félagið áskilur sér rétt til að afla frekari trygginga fyrir reikningsviðskiptum en greinir í töluliðum a-d hér að ofan, s.s. bankaábyrgða, veðtrygginga eða annarra trygginga sem félagið metur fullnægjandi.
  4. Íslandshús ehf. krefst bankaábyrgðar eða annarrar sannarlegrar tryggingar vegna samninga um stærri vörusölu eða verkefni, enda greiði kaupandi ekki fyrir vöruna né verkið fyrr en við afhendingu þess.
  5. Félagið áskilur sér rétt til þess að breyta áður ákveðnum afsláttarkjörum viðskiptamanns án fyrirvara eða sérstakrar tilkynningar án þess að litið sé á það sem uppsögn viðskipta.
 14. Greiðsla mánaðareikninga

  1. Það fyrirkomulag er viðhaft við innheimtu viðskiptaskuldar vegna reikningsviðskipta hjá Íslandshúsum ehf. að greiðsluseðlar eru sendir viðskiptamanni í byrjun hvers mánaðar. Telji viðskiptamaður skuldina ekki réttmæta eða ekki samræmast áður gerðum samningum eða ekki endurspegla viðskipti sem farið hafa fram, ber honum að gera athugasemdir til félagsins fyrir 14. dags þess mánaðar sem greiðsluseðillinn er sendur út eða birtur í heimabanka.
  2. Þeir viðskiptamenn sem fá senda greiðsluseðla samþykkja að greiða sérstakt greiðsluseðlagjald. Gjaldið er ekki innheimt ef greiðsluseðill birtist eingöngu í heimabanka að ósk viðskiptamanns.
 15. Vanskil og dráttarvextir

  1. Sé reikningur ekki greiddur í síðasta lagi á eindaga, þ.e. fyrir 14. dag næsta mánaðar eftir úttektarmánuð, reiknast dráttarvextir skv. 6. gr. l. 38/2001 af heildarskuld viðskiptamanns við félagið frá fyrsta degi næsta mánaðar á eftir úttektarmánuði.
  2. Félagið áskilur sér rétt til að fella niður alla afslætti sem kunna að hafa verið gefnir af vöruúttektum skv. úttektarnótum og/eða reikningum, þar með talda afslætti sem veittir eru í sérstökum tilboðum og/eða samningum við viðskiptamann án fyrirvara, ef greitt er eftir eindaga eða eftir atvikum umsaminn greiðsludag ef það er annar dagur en eindagi.
 16. Innheimtukostnaður

  1. Falli skuld í eindaga er vanskilagjald innheimt af viðskiptamanni. Einnig eru viðskiptamanni send innheimtubréf og innheimtuviðvörun. Kostnaður vegna þessa, er skuldfærður á viðskiptareikning viðskiptamanns hjá félaginu.
  2. Vísað er til innheimtulaga nr. 95/2008 og gildandi reglugerða varðandi innheimtugjöld. Sé skuld ekki greidd innan þeirra fresta sem viðskiptamanni eru veittir með innheimtubréfi og/eða innheimtuviðvörun hefur félagið fulla heimild til að senda viðskiptaskuld í löginnheimtu án frekari fyrirvara.
 17. Úttektarheimildir

  1. Við upphaf reikningsviðskipta tekur félagið ákvörðun um úttektarheimildir viðskiptamanns. Úttektarheimildir eru ákvarðaðar á grundvelli mats félagsins á þeim tryggingum, sem viðskiptamaður leggur fram við upphaf viðskiptanna. Félagið áskilur sér rétt til að endurskoða það mat án sérstakrar tilkynningar eða viðvörunar. Úttektarheimildir kunna því að breytast án þess að það sé tilkynnt sérstaklega.
 18. Úttektaraðilar

  1. Viðskiptamaður skal tilkynna félaginu um þá menn (úttektaraðila) sem heimild hafa til að taka út í reikning hans og/eða óska eftir lykilorði eða leyninúmeri sem nota má til úttekta. Sé slíkt ekki gert eru allar úttektir í viðskiptareikning hjá félaginu á ábyrgð viðskiptamanns. Viðskiptamanni ber að tilkynna félaginu með sannanlegum hætti ef úttektaraðili hefur ekki lengur heimild til úttekta fyrir hans hönd. Úttektaraðili telst því hafa heimild til að taka út í reikning f.h. viðskiptamanns uns breytingar þar á hafa verið tilkynntar félaginu sannanlega. Hafi viðskiptamaður ekki tilkynnt um sérstaka úttektaraðila eða óskað eftir lykilorði eða leyninúmeri, eru allar úttektir í viðskiptareikning hjá félaginu, hverju nafni sem nefnast, á ábyrgð viðskiptamanns. Starfsmenn félagsins geta óskað eftir því að úttektaraðilar sýni skilríki til að sanna á sér deili við hverja úttekt.
 19. Ábyrgðarmenn

  1. Ábyrgðarmönnum er sérstaklega bent á að kynna sér vandlega efni ábyrgðaryfirlýsinga sem þeir skrifa undir. Einnig eru ábyrgðarmenn hvattir til að kynna sér lög um ábyrgðarmenn.
   Tóku gildi 4. apríl 2009. Breytt með l. 98/2009 (tóku gildi 1. okt. 2009 nema 69. og 70. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2010), l. 101/2010 (tóku gildi 1. ágúst 2010) og l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
  2. Með undirritun sinni á ábyrgðaryfirlýsingu eru ábyrgðarmenn að ábyrgjast skuld viðskiptamanns/aðalskuldara sem sína eigin skuld. Séu ábyrgðarmenn fleiri en einn ábyrgist hver um sig fulla greiðslu gagnvart kröfuhafa. Almennar reglur íslensks réttar gilda síðan um uppgjör milli ábyrgðaraðila.
  3. Afturkalli ábyrgðarmaður ábyrgð sína, ber honum að afturkalla ábyrgðina með sannanlegum hætti. Ábyrgðin stendur þá fyrir þeirri skuld sem til staðar er þegar ábyrgðin er afturkölluð, auk vaxta og kostnaðar sem fellur á innheimtu skv. ábyrgðinni eftir að hún er afturkölluð. Greiðslum viðskiptamanns inn á skuld er ráðstafað fyrst inn á þann hluta skuldar sem ekki er tryggður með ábyrgð.
  4. Ef fyrirtæki og lögaðilar í viðskiptum eru seld, sameinuð eða aðrar breytingar verða á rekstri þeirra, er það á ábyrgð þeirra að tilkynna íslandshúsum ehf. um breyttar forsendur viðskiptanna eftir atvikum að afturkalla þá ábyrgð sem til staðar er. Íslandshús ehf. ber ekki með neinum hætti ábyrgð á að fylgjast með slíku.
 20. Annað

  1. Eftir því sem við á gilda lög um lausafjárkaup og lög um neytendakaup um viðskipti skv. viðskiptaskilmálum þessum.
 21. Lögsaga og varnarþing

  1. Um samninga Íslandshúsa ehf. og viðskiptavina þess, skilmála þessa og aðra skilmála þeim tengdum fer skv. íslenskum lögum.
  2. Komi til málaferla eða löginnheimtu vegna viðskipta félagsins og viðskiptamanns má reka mál vegna þessa fyrir Héraðsdómi Reykjaness.